Ég fór á tónleika, sem er ekki í frásögur færandi frekar en að söngkona þeirra tónleika hitti konu í gufubaði á dögunum. Í gufusoðnu spjalli þeirra kom fram að konan hafði ekki átt Megasarlausan dag síðan 1976 og hún hlakkaði því mikið til þessara tónleika. Sjálfur hef ég átt Megasarlausa daga. Marga raunar, því hann fór bæði fyrir ofan garð og neðan hjá mér um sama leyti og konan í gufubaðinu gekkst honum á hönd.
Á þeim tíma sem göldróttur hljóðfæraleikur átti hug minn allan ruku þessir endalausu illskiljanlegu ljóðabálkar út í veður og vind – fyrir ofan garð semsagt, og hljóðfæraleikurinn sem fylgdi þótti mér oftast hálfkaraður – fyrir neðan garð semsagt. En það var þá og er kannski einmitt dæmi um hin nagandi óþægindi sem markverð list hvers samtíma hefur í för með sér.
Ekki man ég hvenær ég heyrði Möggu Stínu fyrst syngja tónlist Megasar, en engan hef ég heyrt fyrr eða síðar koma út úr þeim frumskógi með eins falleg blóm. Það var því sérlega viðeigandi blómaskrúðið á Eldborgarsviðinu á laugardaginn, enda var hnýttur þar hver úrvalskransinn á fætur öðrum.

Söngkonan fór fyrir hreint frábærri hljómsveit. Tómas Jónsson, Daníel Friðrik Böðvarsson, Jakob Smári Magnússon og Matthías Hemstock sáu til þess að Magga Stína gat kjarnað sig áhyggjulaust og sent okkur í salnum bæði umhugsunarefnin í ljóðunum en ekki síður fjölbreyttar laglínurnar sem eru nú ekki allar einfaldar.
Það hvarflaði að mér að einmitt svona hlýtur Megas að heyra þetta fyrir sér, jafnvel þegar hann syngur sjálfur.
Það ætti ekki að þurfa að tala um útgeislun. Brúnamánarnir bláu virtust ná sambandi við hvern og einn einasta áheyranda, og þegar sungið var um fölbleika náttkjóla minnti rauðbleiki sviðskjóllinn á að hitinn kemur að innan og fölvi er ekki til í litasafni söngkonunnar.
Gestagangur var nokkur á þessum tónleikum og ekki skemmdi það fyrir. Didda skáldkona fór á kostum og sérlega eftirminnilegur var þríleikur þeirra Sigrúnar Eðvaldsdóttur með Möggu Stínu. Og brasssveitin Látun kom líka við sögu og spann skemmtilega úthverfasveiflu auk þess að lána saxófónleikara sína í hluta dagskrár. Útgeislun getur líka verið hættuleg geislun og það var eins og þær áttuðu sig vel á því Magga Stína og Halldóra Geirharðsdóttir, sem gættu þess að nálgast ekki um of á sviðinu. Þar hefði getað orðið kjarnasamruni sem hefði kannski riðið okkur öllum að fullu. Ekki má heldur gleyma innkomu Björgvins Gíslasonar með sítarinn, sem sat í stóískri ró þangað til Fílahirðirinn skipti um gír og kallaði eftir fleiri simpatískum strengjum. Þá er ótalið framlag kóranna sem stækkuðu þennan gjörning svo um munaði undir dyggri handleiðslu Hilmar Arnar Agnarssonar.
Okkur sem vorum sein til að “fatta” Megas er nokkur vorkunn. Líklega voru mistök okkar fólgin í því að reyna að “skilj’ann”. Algeng mistök sem hægt er að læra af. Söngvarnir eru óafmáanlegur hluti íslenskrar þjóðarsálar. Maður finnur hversu kunnuglegir þeir eru þó maður muni ekki hvað þeir heita. Blanda af Agli Skallagrímssyni og Sigvalda Kaldalóns, eða Schubert og Sigurði Fáfnisbana.
Ætli við séum að missa af boskap einhvers arftaka Megasar í samtímanum? Er hættan meiri, á tímum offramboðs rétthugsunar og falsfrétta, að við leiðum hjá okkur mikilvægar ónotatilfinningar? Kannski vegna þess að þær eru ekki í umbúðum sem passa okkur? Ég ætla að velta þessu fyrir mér strax og kannski vekja máls á því við sessunaut minn næst þegar ég fer í gufubað.





