Ætli nokkur tónlistarmaður hafi snert líf eins margra Íslendinga og Ragnar Bjarnason?
Það virðist svo stutt síðan að þau hjónin urðu á vegi mínum í hverfisbúðinni. Helle alltaf jafn glæsileg og Raggi…ja hann var bara Raggi. Hlýjan sem einkenndi hann alltaf er líkast til ástæða þess hversu margir minnast nú sinna persónulegu kynna af ástsælasta söngvara og skemmtikrafti sem við höfum átt. Kjarni væntumþykjunnar er nefnilega hvernig honum tókst að gera hver kynni ógleymanleg. Það er galdur sem einungis sannar stjörnur búa yfir.

Þrautseigja hefur einkennt feril Ragnars, sem þurfti að horfast í augu við tískustrauma eins og allir sem stunda listina í meginstraumnum. Lítillæti er annað einkenni allra skemmtilegu bransasagnanna sem hann var óþreytandi að deila með okkur sem nutum þess að spila með honum. Það var ævinlega einhver annar sem var í aðalhlutverki og Raggi virtist enn vera dáleiddur af því hvað Svavar Gests var mikil stjarna á sinni tíð, hversu ótrúlega fyndinn Bessi var í Sumargleðinni, eða hvernig honum sjálfum brá þegar heimsfrægur bassaleikari var allt í einu kominn á svið með honum á þorrablóti í útlöndum. Þrautseigjan birtist líka í því að bregða sér til hliðar á sviðinu og leigja út bíl í miðju gítarsólói.
Hreint ótrúlegur ferill er á enda. Það eru komin þrjátíu ár síðan sett var á svið í Súlnasalnum góða upprifjunarsýning með Ragnari, Ellý og Þuríði. Þá var verið að minnast þess að aldarfjórðungur var liðinn frá því að þau skemmtu fólki við miklar vinsældir á þeim annálaða skemmtistað. Okkur sem tókum þátt í því fannst við heppnir að fá tækifæri til að upplifa stemmninguna með þessum mikilvægu fyrirmyndum. Við héldum líkast til að Raggi væri að setja punktinn við sinn feril. Annað kom á daginn og nú hafa fleiri kynslóðir tónlistarfólks fengið að njóta ómetanlegrar samveru við þennan merkismann. Það er fallegt að sjá hvernig upplifun allra virðist vera á einn veg.
Hér sit ég og rifja upp kynnin af Ragnari Bjarnasyni og hlusta á meðan á hina hliðina, krúnerinn með sitt djúpa víbrató takast á við standardana sem voru svo stór hluti af listfengi hans.
Enginn var þó betur meðvitaður um að vinsæl lög lúta fleiri lögmálum en vel gerðri laglínu. Þar spilar inn í tilfinning fyrir áheyrendum og enginn var í betri tengslum við áheyrendur sína en Raggi sem gerði jú óformlegar markaðsrannsóknir úr bílstjórasæti leigubílsins um langt skeið.
Einhvern veginn virðst það sérkennilegt að tala um dægurtónlist og Ragnar Bjarnason í sömu andrá. Sjötíu ár á sviðinu eru tæpast neitt dægurflug og auðvitað tímalaus snilld að hálfníræður listamaður flytji “You make me feel so young” þannig að maður trúi því.