Categories
Uncategorized

Hátíð í hólfum

Líkast til hafa fæstir átt von á því að Jazzhátíð Reykjavíkur yrði haldin í ár, jafnvel þó gárungarnir hafi grínað með að samkomutakmarkanir hefðu lítil áhrif á tónlist sem í meginstraumi tegundanna þykir fráhrindandi frekar en hitt. En Jón Ómar Árnason stjórnandi hátíðarinnar hjó á hnútinn og fann leið með tónleikastöðum til að skipuleggja viðburðina þannig að áheyrendur þurfa ekki að vera í neinu verulegu návígi hver við annan. Opnunardagurinn fór fram í Hörpu og þó ég hafi ekki verið viðstaddur fyrsta viðburðinn og setningu hátíðarinnar í Flóanum í Hörpu, hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að þar hafi bæði ræðu- og listafólk skilað sínu með mikilli prýði.

Fyrstu kvöldtónleikar Jazzhátíðar 2020 fóru fram í Norðurljósum sem skipt var niður í tvö svæði í sal auk svalanna. Fjórða sóttvarnarsvæðið var svo sviðið sjálft þar sem enginn mátti vera nema skemmtikraftarnir. Og þeir voru bráðsmitandi þetta kvöld ef svo má að orði komast.

Það kom skemmtilega á óvart hversu mikil og góð stemmning var í salnum þar sem sætum hafði verið dreift sakmvæmt reglum um snertilausa tónleikaupplifun. Sigurður Flosason byrjaði með dagskrá tónlistar sem boppari allra tíma Charlie Parker spilaði á sinni tíð við kliðmjúkar útsetningar fyrir hörpu, óbó og strengi auk píanótríós. Og það er skemmst frá því að segja að þetta var bæði hátíðlegt og skemmtilegt. Sigurður kann best allra sögu og tónlist Charlie Parker og komst að venju ákaflega vel frá þessu öllu saman þrátt fyrir að nefna það að sum þessara laga hefði hann nálgast með hálfum hug enda Bird múrinn þverhníptur. En þetta blandaðist vel í salnum og kynningarnar voru fróðlegar. Auknir myndbirtingum á skjá voru þessir tónleikar gríðarlega sterkir og hátíðlegir.

Tómas R Einarsson var næstur á svið jazzhátíðar ársins og mætti með fjölskipaða latin sveit sína sem hefur slípað sinn performans í tvo áratugi. Latínböllin sem Tómas hefur stjórnað á jazzhátíðum undanfarna áratugi eru ávallt vel sótt og aftur varð stemmningin ótrúlega fjörug þó að gestir dönsuðu eingöngu með sjálfum sér og létu nægja að hreyfa sínar mambó tær inn’í skónum. Bógómíl Font og Sigríður Thorlacius hafa líka bætt þessa hljómsveit skemmtanagildi með sínu framlagi. Ég hef þó ákveðnar efasemdir um að textinn við Títómas bæti miklu við það lag. Það er valinn maður í hverju rúmi sveitarinnar en sérlega skemmtilegt var að heyra í Davíð Þór Jónssyni píanóleikara sem jafnan bætir ólýsanlegum galdri við það sem hann tekur þátt í. Það er alltaf pláss fyrir hvatvísar Stravinsky raddsetningar í góðu mambói.

Lokaatriði fyrsta kvöldsins var hljómsveitin Annes. Þar fara nú raunverulegir annesjamenn íslenskrar tónlistar sem eru öllu vanir hvort sem er í meginstraumi hennar eða úti á ystu nöf. Margverðlaunaðir listamenn allir, og vel til fundið að fá hin óræðu form frá Annes til að dreifa huganum eftir strengjaboppið og latínballið. Það kvarnaðist aðeins úr hópi áheyrenda eins og vera ber, enda dagskráin þegar orðin umtalsverð. Og það er nú einu sinni þannig að jazzmúsíkin er ekki öll allra. Það mætti segja um tónlist Annes að hún leiti innávið. Það er samleikur hljómsveitarinnar sem er léreftið á meðan lögin eru litirnir í höndum hljóðfærapenslanna. Og myndasafnið þetta kvöld var áhugavert eins og jafnan þegar þessi hópur kemur saman. Það er yfir þessu einher spennandi eftirvænting sem smitast meðal áheyrenda. Kraumandi undiralda á spegilsléttum fleti.

Hún fór vel af stað Jazzhátíð Reykjavíkur þetta árið og það er heill hellingur eftir af þrítugsafmæli hennar. Kannski á eftir að reynast gæfuspor að á þessum tímamótum sé sviðsljósinu beint að innlendu listafólki, ekki síst ef jazzmúsíkin er sú eina sem getur viðrað sig í ástandi sem er við það að ganga af tónlistinni í landinu dauðri.

peturgretarsson's avatar

By peturgretarsson

Musician,percussionist/composer. Radio host.

Leave a comment