… í september 2021

Dagurinn hófst með mímósu dögurði og hádegissvíngi á hóteli við Hlemm. Þó að inngangur sem þessi myndi sóma sér sem upptaktur að skrautlegum lýsingum á stóðlífi og ofneyslu – var engu slíku til að dreifa. Það var hugguleg og lágstemmd standardastemmning hjá Rebekku Blöndal sem söng fallega fyrir okkur á meðan kampavínsbættur appelsínudjúsinn hríslaðist um kroppinn. Og klukkan ekki orðin eitt.
Það er jafnvægislist að setja upp tónlistarhátíð. Jazzhátíð ársins er í góðu jafnvægi. Hún teflir fram íslensku jazzlífi eins og það er; allskonar. Það er líka í boði framúrskarandi tónlist víða að utan úr heimi. Þannig á það að vera. Innlenda listafólkið spannar allan skalann. Innfluttu atriðin eru þegar best tekst til einungis framúrskarandi.

Lucky Records reyndist skemmtilegur viðkomustaður á laugardagsgöngunni eins og oft áður. Í þetta sinn spunnust umræðurnar um hvort umtalsverð plötusöfn gætu reynst jazzleikurum ígildi lífeyrissjóðs á næst efsta degi. Og svo var líka rætt um stöðu tónlistarinnar sjálfrar í nútímanum. Hún virðist jafnan vera nokkuð góð ef eitthvað er að marka útgáfuna. Reyndar er umhugsunarefni hvernig þáþráin tekur gjarnan yfir þegar auka á skemmtanagildið. Tryggingarsölumenn tónlistarinnar telja iðgjöldin á fingrum liðinna tíma. En það er jafn skiljanlegt og það að meiri vínill er geymdur í kjallaranum og vængmenn síðdegishressingarinnar í 12 Tónum eru margreyndir n-amerískir meistarar hefðarinnar.
Um miðjan laugardaginn var boðið upp á minimalískan ambientdjass. Í einfaldleika mínum fannst mér sú lýsing fyrirfram vera eins og viðvörun um að ekkert myndi gerast. Það reyndist ekki alveg svo hjá Svaneborg og Kardyb, sem léku saman á hljómborð og trommur. Kannski hefur einmitt tekist vel til þegar hugurinn rásar til og frá við hljómfagran samleik þeirra. Stemmningarnar voru vel útfærðar og samspilaðar. Ekki mikil – ef nokkur – frávik frá fyrirfram ákveðinni ferðaáætlun og tónlistin svo langt frá því að vera uppáþrengjandi að ég stóð mig að því að vera hugsa um aðra tónlist á meðan. Eru það kannski meðmæli í minimaliskum heimi?
Finnsk eistneska framlagið úr samnorrænu loftsteinasafni jazztónlistarinnar var óvenjulega samsettur kvartett þar sem söngkonan Kadi Vija babbaði (söng án orða) sinn hluta eigin tónsmíða. Þetta var því eiginlega instrumental tónlist og engir gildishlaðnir textar til að gera manni upp hughrifin. Skemmtilega galin framvinda með bassaklarinettu, gítar og trommum auk raddarinnar. Rafhljóð trommarans bættu við skemmtilegri vídd sem ýttu samspilinu út í óvissuna. En það kom líka tónlist með texta. Og þá varð allt venjulegra einhvern veginn.

Það eru allnokkur ár síðan Phil Doyle spilaði fyrst á Jazzhátíð Reykjavíkur, á eftirminnilegum tónleikum í Fríkirkjunni. Það var mikill happafengur fyrir Akureyri og landið allt að hann skyldi slá sér niður hér á landi. Ég beið með nokkurri eftirvæntingu tónleika hans í stórum hópi nokkurra okkar bestu. Og það var boðið upp á fjölbreytta dagskrá innblásna meðal annars af náttúru Íslands. Fumlaus og skilvirk hljómsveitarstjórn leiddi áfram litríka dagskrá sem fól í sér rými fyrir liðsmenn að teygja úr sér af snilld. Þessu fylgdi líka myndband með drónaskotum af íslenskri náttúru – viðbót sem dró frekar úr upplifun minni. Eftirminnilegast er ágengasta verkið þar sem þess var freistað að kalla fram sjaldheyrða yfirtóna. Í heildina mjög skemmtilegt framlag Phil Doyle Polyharmonic Ensemble.
Tenórsaxófónmeistarinn Melissa Adlana leiddi kvartett sinn í gegnum dagskrá eigin tónlistar að mestu. Ein lítil prelúdía úr amerísku söngbókinni fylgdi með. Slíkar ólívugreinar virka oft mjög vel ef áheyrendum er efnisskráin mjög framandi. En tónlist hennar er ekki sérlega ögrandi. Það var frekar eins og gleymst hefði að hafa yfir galdraþuluna sem er nauðsynleg til að magna seiðinn. Þetta skildi mig eftir ósnortinn.

Jazzhátíð ársins lauk á sannkallaðri gleðisprengju í Flóa. Los Bomboneros fluttu stórsveitarútgáfur á sölsum og kúmbíum héðan og þaðan. Frumsamdar og fengnar að láni voru þær í bland en áttu það allar sameiginlegt að vera drifnar áfram af Alexöndru Kjeld sem lætur sig ekki muna um syngja lögin yfir ómótstæðilegan montuno bassaganginn sem pumpar blóðinu á offbítinu innan um tifið í tres gítarnum og magnaðri slagverkssveit. Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir heldur svo í þræði Bombastico stórsveitarinnar sem tengir stoð- tauga- og æðakerfi algleymis í músík og dansi.
Upplýsingar um tónlstarfólk einstakra viðburða er að finna á reykjavikjazz.is











