
Myrkir músíkdagar voru meðal fyrstu snertiflata minna við nýsmíðaða samtímatónlist. Það lá eitthvað í loftinu á Kjarvalsstöðum í byrjun árs 1980. Reyndar liggur alltaf eitthvað í loftinu þegar hrært er í frumflutning nýrrar tónlistar. Ilmur eftirvæntingarinnar er höfugur og ekki skemmir fyrir ef bragðið stendur undir væntingum þess sem þorir að smakka. Á þessum tíma árs minna Myrkir músíkdagar á þorrabakkann. Sumt kunnuglegt og annað framandi og mis súrt.






Hátíð ársins 2024 var gríðarlega vel heppnuð. Dagskráin þétt og áhugaverð en þó þannig samsett að mögulegt var að sækja alla viðburðina, sem er í sjálfu sér skipulagslegt kraftaverk. Sjálfur sótti ég rúmlega tug viðburða og heyrði því líklega uþb 40 verk. Langflest í fyrsta sinn.

Það er vart á neinn hallað þó að ópera Guðmundar Steins Gunnarssonar – Gleðilegi geðrofsleikurinn – sé tekin út fyrir sviga sem áhugaverðasta nýsmíðin á hátíðinni að þessu sinni. Verkið sem byrjaði eins og nítjándu aldar óperetta umpólaðist fljótt í mjög ágenga hugleiðingu um geðrof og viðbrögð samfélagsins við því óáþreifanlega fráviki sem leikur oft grátt þá sem eiga við það að etja. Það var þó í þessu einhver von sem kristallaðist í lokaatriðinu þegar rofaði til fyrir aríu og dúetti, svo ekki sé talað um fallegan sálm kórsins. Ég viðurkenni fúslega að það vafðist fyrir mér að þiggja smáskammtaða sveppina sem boðið var uppá fyrir lokahluta leiksins. Hverjum treystir maður þegar óljóst er hverjir eru gestir og hverjir starfs- eða vistmenn? Það hefur sjaldan átt betur við að lýsa tónlistarviðburði með orðunum “þetta var geðveikt !”
Tónskáldkonan Pauline Oliveros kom nokkuð við sögu á Myrkum músíkdögum ársins. Heimildamynd um hana lýsti vel listakonu sem fann sína braut ásamt helstu páfum nýrrar tónlistar upp úr miðri öldinni sem leið. Hún, sem kenndi John Cage að harmónía væri einfaldlega það að búa til tónlist með glöðu geði. Hún, sem hefði getað sinnt eingöngu eigin ferli í tónsmíðum, en ákvað að gefa sig frekar á vald taumlausri forvitni um hvernig tónlist þjóni best nærumhverfinu. Hlustið og þér munuð heyra.
Samfélagsvitund Oliveros birtist fallega í gjörningi Skerplu, sem flutti verk hennar í opnum rýmum Hörpu. Einnig kallaðist framlag Gjörningaklúbbsins á sinfóníutónleikum hátíðarinnar, nánar tiltekið pappírsforleikur verksins- skemmtilega á við Pauline Oliveros.
Segja má að harmonikan væri í nokkru öndvegi á hátiðinni. Pauline Oliveros var jú fyrst og fremst harmonikuleikari – þó hún hafi fundið dragspilinu frumlegt og nýtt hlutverk í sinni list. En Jónas Ásgeir Ásgeirsson botnaði harmonikufyrripart Oliveros með flutningi á konsertum Finns Karlssonar og Þuríðar Jónsdóttur með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verk Þuríðar -Installation around a heart – er eitt eftirminnilegasta verk hátíðarinnar.



Skýrasta minningin frá þessum dögum er þó fyrst og fremst sú að allt sem boðið var uppá var áhugavert á sinn hátt. Dæmi um þetta eru dúettar Ensemble Adapter annars vegar og Gyðu Valtýsdóttur og Úlfs Hanssonar hins vegar. Ólíkar paranir í tónlist þar á ferðinni. Önnur byggði á ágengum elektrónískum kontrapunkti nýrrar aldar en hin á nánast rómantísku flæði sellóspuna og síbreytilegra hljóðgerfilstóna.
Þannig stendur fjölbreytnin undir nafni. Öll drögum við ályktanir um það sem við heyrum út frá eigin ástandi. Er verið að leggja dóm á þann sem hlustar, eða það sem heyrist – þegar eitthvað er stimplað frumlegt eða gamaldags, skemmtilegt eða leiðinlegt?
Á tímum þegar tónlist berst áheyrendum nánast viðstöðulaust allan sólarhringinn eftir leiðum sem þeir eru annaðhvort meðvitaðir eða ómeðvitaðir um – verður það sífellt mikilvægara að samsetning viðburðanna sé vönduð. Hér var ekki á ferðinni einhver tilviljunarkennd naglasúpa úr íðorðasafni streymisveitunnar, heldur vel ígrundað hlaðborð besta mögulega hráefnis. Innihaldslýsingar voru eins nákvæmar og hægt er að ætlast til. Bragðið kom oft skemmtilega á óvart og engum varð meint af svo vitað sé.





