Categories
Uncategorized

Maí og júní

Velkomin til Þýskalands í gegnum Feneyjar

Vorið var ekki uppá marga fiska á landinu bláa. Skottúr til Feneyja reyndist prýðis uppbrot í hversdagslífið. Ég fór þangað með konu minni, dóttur og dóttursyni.

Fyrir heimsóknina á tíeyringinn í Feneyjum var úr ýmsu að moða í tónlistarlífinu. Tumi Árnason fór með gesti sína í stórskemmtilegt ferðalag í Sólverki sínu (útskriftarverki hans frá Listháskólanum). Fjölskipuð sveit býður upp á alveg sérstakt andrúmsloft í svona miklum spuna. Það verður gaman að heyra þetta aftur á Djasshátíð Reykjavíkur í ágústlok.

Ensemble Adapter heldur áfram að gera góða hluti. Í þetta sinn endurskópu þau verk frá níunda áratugnum þar sem tónlist John Cage og Toru Takemitsu var sett í sérkennilegt hljóðrænt og sjónrænt samhengi. Gríðarlega vel gert hjá Gunnhildi Einarsdóttur og Matthíasi Engler. Performansinn í Norðurljósum var á mörkum heimildarþáttar og tónleika.

Stórsveit Reykjavíkur hélt sína árlegu tónleika með nýsmíðaðri stórsveitartónlist. Samúel Jón Samúelsson stjórnaði af röggsemi mjög ólíkri tónlist. Það er merki um aukinn styrk hljómsveitarinnar hvernig hún skilar ólíkum verkefnum í dagskrá sinni á sífellt hærra plani.

Þorleifur Gaukur Davíðsson sýndi okkur myndina með fínu músíkinni sem hann tileinkar föður sínum – áður en þeir Skúli Sverrisson og Davíð Þór Jónsson spiluðu fyrir gesti í Salnum. Munnharpa eða gítarar úr timbri jafnt og stáli. Allt leikur í höndum Gauks og samspil þeirra þriggja óaðfinnanlegt.

Listahátíð í Reykjavík var með hefðbundnu sniði. Eitthvað fyrir alla. Yfirleitt finn ég eitthvað áhugavert í dagskrá hátíðarinnar, sem dugar svo sem alveg. Hún er ekki fyrir mig einan. En mér finnst hún mætti vera listrænt ágengari, sérstaklega á tónlistarsviðinu.

Ég sá Jacob Collier, sem ég hef fylgst með síðan ég sá hann á tónleikum í Þýskalandi fyrir átta árum. Þá var hann rétt rúmlega tvítugur og að byrja að koma fram með sína ótrúlegu tækni og hæfileika. Ekki hefur tæknin minnkað eða hæfileikarnir. Ég hefði glaður borgað fullt verð bara fyrir túlkun hans á Bridge over troubled water. Það er líka einhver hreinleiki í hvernig hann virkjar salinn í söng. Hins vegar er sérkennilegt hversu mikil skinka hann er inn á milli og hversu mikinn kraft hann setur í að gleðja alla, þegar hann hlýtur að vita að það er ekki hægt.

Það var tónlistarhópurinn Skerpla sem kom mér skemmtilega á óvart með endurgerð á verki eftir John Cage. Alltaf skal sá magnaði höfundur/hugsuður vera í hringiðu óræðninnar. Fjölskipaður Skerplu hópurinn vann verkið – Niður, íslenskur sirkus um Ljósagang – eftir forskrift Cage upp úr Ljósagangi Dags Hjartarsonar. Úr varð sérkennilegt og fjölbreytt ferðalag í óminum af nið aldanna og spurningunni um hvaða tónlist skiptir máli. Hér er linkur á útvarpsþátt sem ég gerði um þetta.

Annar viðburður sem mér finnst eftirminnilegur er Raddir úr blámanum. Þar söng Benedikt Kristjánsson með Ensemble Adapter tónlisti eftir Þuríði Jónsdóttur. Mjög falleg blanda af nýju og gömlu sem hljómaði í Breiðholtskirkju.

Davíð Þór Jónsson hélt áfram með að spinna í Salnum í Kópavogi og Eyþór Gunnarsson tók slaginn með honum á sumarsólstöðutónleikum. Það hefur verið gríðarlega gaman að fylgjast með dúettum þeirra alveg frá því að þeir spiluðu fyrsta dúettinn á Djasshátíð Reykjavíkur 2008. Maður veit aldrei hvert þeir fara eða á hvaða snúningi maskínan verður. Hér er linkur útvarpsþætti sem urðu til þegar þeir komu í heimsókn í útvarpið í fyrra.

Og útvarpið verður að horfast í augu við að utan þess er líka líf. Jónatan Garðarsson, minn góði samstarfsmaður til margra ára kvaddi Rás eitt á dögunum eftir farsælan feril og ótrúlega framleiðni.

Categories
Uncategorized

April jazz

The International Jazz Day – April 30th has been celebrated in Reykjavik since it was fist declared by Unesco in 2011. This year we saw a wide variety of events throughout the city and a healthy dose of added limelight on the radio.

My first stop was at Hannesarholt where Óskar Guðjónsson led his quartet Move through his compositions. Eyþór Gunnarsson at the piano, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson on bass and Matthías Hemstock on drums. It’ s all about the depth of interpretation with this fantastic group. They have been honing this music for seven years – looking for something more, something different. It’s a very subtle transformation for those of us that have followed it from the beginning. Hopefully there will eventually be a recording that captures this amazing journey.

Weekly jam sessions at the burger joint Le Kock in the oldest part of Reykjavik are usually held on mondays. To coincide with the international day of jazz it was held on a tuesday. The house band of saxophonist Sölvi Kolbeinsson, drummer Magnús Trygvason Elíasen, guitarist Daníel Friðrik Böðvarsson and bassist Sigmar Thor Matthiasson set the mood and made the particiapants in the ensuing jam session feel very welcome. A left handed upright bass didn’t even managa to keep adventorous bassist abay.

April in Bremen

It is a true pleasure to witness how the Jazzahead has grown since its inception 18 years ago.

Bremen, Germany – hosts this largest festival/conference of jazz in the world.

Although the profit-margin of what Jazzahead represents can hardly compete with what flows in the main stream, this is a very credible barometer on how the European improvisatory winds are blowing. Music export offices from all over the world are present to pave the way for their artists

Every year there is a focus country present. This year it was Holland, the country that for the last decades has become the most popular location for those wanting to further their jazz studies in a conservatory environment.

Also present this year was an interesting African contribution.

Brilliant idea to have the showcases available on a big screen in the outdoor arena.
The fantastic Alune Wade of Senegal

The Icelandic Music Center was present with several of the artists from the Icelandic Jazz Scene. Here is a link to my Radio Program Djassland with interviews with the Icelandic artists and Sigtryggur Baldursson, the representative from Icelandic Music.

EBU Radio and all that jazz

Jazz on the radio. A panel moderated by Götz Bühler (on the right) with EBU Radio representatives. Anniken Sunde, Andreas Felber and Laima Slepkovaite (left to right)

Jazz on the radio. A panel moderated by Götz Bühler (on the right) with EBU Radio representatives. Anniken Sunde, Andreas Felber and Laima Slepkovaite (left to right)

My visit to Jazzahead coincided with a meeting of jazz producers from radio staions of the EBU. My first time meeting these fine people who of course have to deal with different issues on their home fronts.

Most of us seem to have the understanding of our superiors regarding jazz music as an important part of any music programming and it is common to have a working relationship between classical and jazz at our stations.

We share the enthusiasm to bring good music to our listeners and to keep trying to find ways to enable the artists to ever greater heights. To this end we cooperate on the Euroradio Jazz Competition – a competion of young artists, who we suggest to a jury that selects the final four bands/artists to play at the Jazz Festival in Marciac in July.

Iceland’s representative in the preliminaries this year is guitarist Mikael Máni Ásmundsson.

The EBU jazz producers also come together for the Eurojazz Orchestra. An international big band of players under the age of 30. Individuals are suggested by the members of theh EBU Jazz Producers group and the final choice left with whoever leads the band each year.

Categories
Uncategorized

Apríldjassinn

English

Alþjóðlegi djassdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Reykjavík allar götur síðan Unesco setti hann inn á almanakið árið 2011. Í þetta sinn var boðið upp á fjölbreytta dagskrá víðsvegar um borgina.

Mín leið lá í Hannesarholt þar sem Óskar Guðjónsson blés eigin tónlist á saxófóna sína með Move kvartettinum. Eyþór Gunnarsson á píanó, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á bassa og Matthías Hemstock á trommur.

Þeir spiluðu sig vel inn í þennan fallega sal sem er nú reyndar full lítill fyrir hljómsveit sem býr yfir þeirri margslungnu túlkun sem þarna er á ferðinni. Lögin hans Óskars hafa verið eimuð í þessum félagsskap í sjö ár svo að það kemur ekki á óvart að allt sé á dýptina.

Við sem hlustum upplifum þetta eins og enn eitt metið í samspili og nærfærni á meðan Michelin kokkarnir á sviðinu eru enn að leita að þessu auka míkrógrammi í aðra hvora áttina. Vonandi kemur fljótlega plata sem markar upphafið að næstu sjö ára blöndu.

Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef ekki fyrr mætt á djammsessjón á Le Kock við Tryggvagötuna. Þar var húsbandið að störfum. Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Maggi Tryggva á trommur og Daníel Friðrik á gítar. Sigmar Þór mannaði sinn örvhenta kontrabassa sem latti viðstadda bassaleikara frekar til stuðsins, þó Birgir Steinn Theodórsson hafi ekki látið það hafa áhrif á sinn rétthenta stíl, enda vissu sumir meðspilarar hans ekki hvoru megin línan lá.

Skemmtilegur staður fyrir svona uppákomu og ástæða til að hvetja fólk til að sækja mánudjassinn á Le Kock.

Apríl í Bremen – Jazzahead

Það er gaman að sjá hvernig Jazzahead hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg á þeim átján árum sem hún hefur farið fram.

Bremen í Þýskalandi er vettvangur þessarar stærstu kaupstefnu djasstónlistarinnar í heiminum.

Þó að ágóðavon starfseminnar sem þarna er kynnt sé ekki í hæstu hæðum þá er þarna að finna ákveðna loftvog þess sem á sér stað á Evrópusviði spunalistarinnar. Útflutningsstofur hvaðanæva að úr heiminum koma sér þarna fyrir til að kynna listafólk sitt.

Hvert ár er valin gestaþjóð sem teflir fram áhugaverðasta listafólki sínu í tónleikaröðum hátíðarinnar. Í ár var það Holland, sem hefur undanfarna áratugi haslað sér völl sem helsti áfangastaður þeirra sem leggja stund á djassfræðin í tónlistarskólum.

Einnig var lögð áhersla á nýja djasstónlist frá Afríku á þessari hátíð.

Frábær hugmynd að bjóða uppá tónleikana á risaskjá á útisvæði líka

Íslenskur bás hefur verið á Jazzahead í 12 ár á vegum Tónlistarmiðstövar. Hér er linkur á útvarpsþátt með viðtölum við íslenska þátttakendur ársins og Sigtrygg Baldursson frá Tónlistarmiðstöð.

EBU og allur sá djass

Ég sótti fund útvarsfólks djasstónlistarinnar á Jazzahead þetta árið. EBU heldur úti áhugaverðu samstarfi í djasstónlist sem verður gaman að taka þátt í fyrir hönd Rásar 1 Ríkisútvarpsins.

Þessi félagsskapur er ábyrgur fyrir að bjóða til evrópusamstarfsins hljóðritanir með listafólki frá sínum svæðum. Við höfum tam í gegnum tíðina boðið valdar hljóðritanir frá Djasshátíð Reykjavíkur og vonandi verður hægt að taka upp þennan þráð þegar búið verður að skrifa undir nýja samninga Rúv og hljómlistarfólks.

Öll eigum við sameiginlegt í þessum EBU félagsskap að brenna fyrir að deila spennandi tónlist með útvarpshlustendum heima og heiman. Flest vinnum við jöfnum höndum með sígilda tónlist og djass og svo eru auðvitað mjög mismunandi vandamál sem blasa við í hverju landi, hvort sem er í fjármögnun eða afstöðu ráðamanna til ríkisrekinna fjölmiðla.

Saman stöndum við að Euroradio Jazz Competition, sem er keppni ungs listafólks (undir þrítugu). Hvert land tilnefnir einn listamann eða hljómsveit sem dómnefnd úr okkar röðum velur úr fjögur atriði til að keppa til úrslita á Marcic djasshátíðinni í suður Frakklandi.

Fulltrúi Íslands í ár er gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson.

Einnig stendur djassdeild EBU fyrir alþjóðlegri stórsveit hvert ár. Þá tilnefnir hvert land einn hljóðfæraleikara til þátttöku og valið er síðan í höndum þess sem leiðir hljómsveitina í hvert sinn. Ákvörðun liggur ekki fyrir hvar þetta fer fram á ár en Slóvakía er líkleg.

Categories
Uncategorized

Myrkir músíkdagar 2024


Myrkir músíkdagar voru meðal fyrstu snertiflata minna við nýsmíðaða samtímatónlist. Það lá eitthvað í loftinu á Kjarvalsstöðum í byrjun árs 1980. Reyndar liggur alltaf eitthvað í loftinu þegar hrært er í frumflutning nýrrar tónlistar. Ilmur eftirvæntingarinnar er höfugur og ekki skemmir fyrir ef bragðið stendur undir væntingum þess sem þorir að smakka. Á þessum tíma árs minna Myrkir músíkdagar á þorrabakkann. Sumt kunnuglegt og annað framandi og mis súrt.   

Hátíð ársins 2024 var gríðarlega vel heppnuð. Dagskráin þétt og áhugaverð en þó þannig samsett að mögulegt var að sækja alla viðburðina, sem er í sjálfu sér skipulagslegt kraftaverk. Sjálfur sótti ég rúmlega tug viðburða og heyrði því líklega uþb 40 verk. Langflest í fyrsta sinn.  

Það er vart á neinn hallað þó að ópera Guðmundar Steins Gunnarssonar – Gleðilegi geðrofsleikurinn – sé tekin út fyrir sviga sem áhugaverðasta nýsmíðin á hátíðinni að þessu sinni. Verkið sem byrjaði eins og nítjándu aldar óperetta umpólaðist fljótt í mjög ágenga hugleiðingu um geðrof og viðbrögð samfélagsins við því óáþreifanlega fráviki sem leikur oft grátt þá sem eiga við það að etja. Það var þó í þessu einhver von sem kristallaðist í lokaatriðinu þegar rofaði til fyrir aríu og dúetti, svo ekki sé talað um fallegan sálm kórsins. Ég viðurkenni fúslega að það vafðist fyrir mér að þiggja smáskammtaða sveppina sem boðið var uppá fyrir lokahluta leiksins. Hverjum treystir maður þegar óljóst er hverjir eru gestir og hverjir starfs- eða vistmenn? Það hefur sjaldan átt betur við að lýsa tónlistarviðburði með orðunum “þetta var geðveikt !” 

Tónskáldkonan Pauline Oliveros kom nokkuð við sögu á Myrkum músíkdögum ársins. Heimildamynd um hana lýsti vel listakonu sem fann sína braut ásamt helstu páfum nýrrar tónlistar upp úr miðri öldinni sem leið. Hún, sem kenndi John Cage að harmónía væri einfaldlega það að búa til tónlist með glöðu geði. Hún, sem hefði getað sinnt eingöngu eigin ferli í tónsmíðum, en ákvað að gefa sig frekar á vald taumlausri forvitni um hvernig tónlist þjóni best nærumhverfinu. Hlustið og þér munuð heyra. 

Samfélagsvitund Oliveros birtist fallega í gjörningi Skerplu, sem flutti verk hennar í opnum rýmum Hörpu. Einnig kallaðist framlag Gjörningaklúbbsins á sinfóníutónleikum hátíðarinnar, nánar tiltekið pappírsforleikur verksins- skemmtilega á við Pauline Oliveros. 

Segja má að harmonikan væri í nokkru öndvegi á hátiðinni. Pauline Oliveros var jú fyrst og fremst harmonikuleikari – þó hún hafi fundið dragspilinu frumlegt og nýtt hlutverk í sinni list. En Jónas Ásgeir Ásgeirsson botnaði harmonikufyrripart Oliveros með flutningi á konsertum Finns Karlssonar og Þuríðar Jónsdóttur með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Verk Þuríðar -Installation around a heart – er eitt eftirminnilegasta verk hátíðarinnar.  

Skýrasta minningin frá þessum dögum er þó fyrst og fremst sú að allt sem boðið var uppá var áhugavert á sinn hátt. Dæmi um þetta eru dúettar Ensemble Adapter annars vegar og Gyðu Valtýsdóttur og Úlfs Hanssonar hins vegar. Ólíkar paranir í tónlist þar á ferðinni. Önnur byggði á ágengum elektrónískum kontrapunkti nýrrar aldar en hin á nánast rómantísku flæði sellóspuna og síbreytilegra hljóðgerfilstóna.   

Þannig stendur fjölbreytnin undir nafni. Öll drögum við ályktanir um það sem við heyrum út frá eigin ástandi. Er verið að leggja dóm á þann sem hlustar, eða það sem heyrist – þegar eitthvað er stimplað frumlegt eða gamaldags, skemmtilegt eða leiðinlegt?  

Á tímum þegar tónlist berst áheyrendum nánast viðstöðulaust allan sólarhringinn eftir leiðum sem þeir eru annaðhvort meðvitaðir eða ómeðvitaðir um – verður það sífellt mikilvægara að samsetning viðburðanna sé vönduð. Hér var ekki á ferðinni einhver tilviljunarkennd naglasúpa úr íðorðasafni streymisveitunnar, heldur vel ígrundað hlaðborð besta mögulega hráefnis. Innihaldslýsingar voru eins nákvæmar og hægt er að ætlast til.  Bragðið kom oft skemmtilega á óvart og engum varð meint af svo vitað sé.  

Categories
Uncategorized

Lisbon 2022

Categories
Uncategorized

Mjólk draumanna

Tvíæringurinn 2022

Mjólk drauma minna er köld og fersk. Hvorki undanrenna né fjörmjólk dugir. Full fituprósenta og ekkert rugl. Tvíæringurinn er eins og risastórt sjálfgöngufjós. Þar stendur maður í bununni úr alþjóðlegum listaspenum ýmissa tíma. Tímaleysið er algjört. Nýtt gæti verið gamalt – gamalt eins og splunkunýtt. Myndlist er fyrir mér dáldið lík mjólk. Mér finnst hún góð. Ekkert óþol, en svo get ég líka verið án hennar í lengri tíma. Hún þarf að vera fersk og helst í henni umtalsverður broddur.


Gestgjafarnir bjóða uppá ævintýraferð í gegnum endurskapaða saumastofu


Spánverjar byggja inn í sinn skála, annan sem hefur verið hnikað til um tíu gráður. Þá loksins er hann í línu við belgíska skálann við hliðina.


Danska framlagið í ár kemur frá einhverjum mjög dimmum stað.


Þessi kom frá miklu bjartari stað. Josephine Baker er aðeins ein fjölmargra listakvenna frá fyrri hluta 20. aldar sem er gerð góð skil í Feneyjum.


Typpin í ár eru af mjög fjölbreyttu tagi


Hver hefur ekki viljað vera einn í ólympískri keppnislaug að gára línurnar með listrænu skriðsundi?


Strætó á fljótandi tímaplani…

Glæsilegt framlag Íslands hefði þurft stærra rými til njóta sín til fulls.


Glóandi stáldropar féllu úr loftinu hjá Möltu.


Annaðhvort Grýla eða Byltingin. Hún er allavega að éta börnin sín.


Skæðar tungur Brasilíu…

…og mjúkir rassar


Þessi fagnar gestum stóra skálans …

…þar sem er hrært í sýningar úr öllum áttum


Lettar sýna vandaða keramikgripi kunnuglegra tákna. Píkuplattar og krossbellir…



Lítil stemmning í rússneska skálanum. Æpandi fjarvera.


Úkraína sendi þessa mynd af því hvernig gengið er frá myndlistinni þar þessa dagana.



Augnaráðið hennar Palmíru frá Venezúela er ómótstæðilegt.


Sumir virðast ekki geta tekið listina alvarlega….





Notaleg stemmning hjá Úsbekistan


Categories
Uncategorized

Djassdagur…

… í september 2021

Dagurinn hófst með mímósu dögurði og hádegissvíngi á hóteli við Hlemm. Þó að inngangur sem þessi myndi sóma sér sem upptaktur að skrautlegum lýsingum á stóðlífi og ofneyslu – var engu slíku til að dreifa. Það var hugguleg og lágstemmd standardastemmning hjá Rebekku Blöndal sem söng fallega fyrir okkur á meðan kampavínsbættur appelsínudjúsinn hríslaðist um kroppinn. Og klukkan ekki orðin eitt. 

Það er jafnvægislist að setja upp tónlistarhátíð. Jazzhátíð ársins er í góðu jafnvægi. Hún teflir fram íslensku jazzlífi eins og það er; allskonar. Það er líka í boði framúrskarandi tónlist víða að utan úr heimi. Þannig á það að vera. Innlenda listafólkið spannar allan skalann. Innfluttu atriðin eru þegar best tekst til einungis framúrskarandi.

Ingvar Geirsson og Pétur Hallgrímsson

Lucky Records reyndist skemmtilegur viðkomustaður á laugardagsgöngunni eins og oft áður. Í þetta sinn spunnust umræðurnar um hvort umtalsverð plötusöfn gætu reynst jazzleikurum ígildi lífeyrissjóðs á næst efsta degi. Og svo var líka rætt um stöðu tónlistarinnar sjálfrar í nútímanum. Hún virðist jafnan vera nokkuð góð ef eitthvað er að marka útgáfuna. Reyndar er umhugsunarefni hvernig þáþráin tekur gjarnan yfir þegar auka á skemmtanagildið. Tryggingarsölumenn tónlistarinnar telja iðgjöldin á fingrum liðinna tíma. En það er jafn skiljanlegt og það að meiri vínill er geymdur í kjallaranum og vængmenn síðdegishressingarinnar í 12 Tónum eru margreyndir n-amerískir meistarar hefðarinnar. 

Um miðjan laugardaginn var boðið upp á minimalískan ambientdjass. Í einfaldleika mínum fannst mér sú lýsing fyrirfram vera eins og viðvörun um að ekkert myndi gerast. Það reyndist ekki alveg svo hjá Svaneborg og Kardyb, sem léku saman á hljómborð og trommur. Kannski hefur einmitt tekist vel til þegar hugurinn rásar til og frá við hljómfagran samleik þeirra. Stemmningarnar voru vel útfærðar og samspilaðar. Ekki mikil – ef nokkur – frávik frá fyrirfram ákveðinni ferðaáætlun og tónlistin svo langt frá því að vera uppáþrengjandi að ég stóð mig að því að vera hugsa um aðra tónlist á meðan. Eru það kannski meðmæli í minimaliskum heimi?

Finnsk eistneska framlagið úr samnorrænu loftsteinasafni jazztónlistarinnar var óvenjulega samsettur kvartett þar sem söngkonan Kadi Vija babbaði (söng án orða) sinn hluta eigin tónsmíða. Þetta var því eiginlega instrumental tónlist og engir gildishlaðnir textar til að gera manni upp hughrifin. Skemmtilega galin framvinda með bassaklarinettu, gítar og trommum auk raddarinnar. Rafhljóð trommarans bættu við skemmtilegri vídd sem ýttu samspilinu út í óvissuna. En það kom líka tónlist með texta. Og þá varð allt venjulegra einhvern veginn.

Það eru allnokkur ár síðan Phil Doyle spilaði fyrst á Jazzhátíð Reykjavíkur, á eftirminnilegum tónleikum í Fríkirkjunni. Það var mikill happafengur fyrir Akureyri og landið allt að hann skyldi slá sér niður hér á landi. Ég beið með nokkurri eftirvæntingu tónleika hans í stórum hópi nokkurra okkar bestu. Og það var boðið upp á fjölbreytta dagskrá innblásna meðal annars af náttúru Íslands. Fumlaus og skilvirk hljómsveitarstjórn leiddi áfram litríka dagskrá sem fól í sér rými fyrir liðsmenn að teygja úr sér af snilld. Þessu fylgdi líka myndband með drónaskotum af íslenskri náttúru – viðbót sem dró frekar úr upplifun minni. Eftirminnilegast er ágengasta verkið þar sem þess var freistað að kalla fram sjaldheyrða yfirtóna. Í heildina mjög skemmtilegt framlag Phil Doyle Polyharmonic Ensemble.

Tenórsaxófónmeistarinn Melissa Adlana leiddi kvartett sinn í gegnum dagskrá eigin tónlistar að mestu. Ein lítil prelúdía úr amerísku söngbókinni fylgdi með. Slíkar ólívugreinar virka oft mjög vel ef áheyrendum er efnisskráin mjög framandi. En tónlist hennar er ekki sérlega ögrandi. Það var frekar eins og gleymst hefði að hafa yfir galdraþuluna sem er nauðsynleg til að magna seiðinn. Þetta skildi mig eftir ósnortinn.

Jazzhátíð ársins lauk á sannkallaðri gleðisprengju í Flóa. Los Bomboneros fluttu stórsveitarútgáfur á sölsum og kúmbíum héðan og þaðan. Frumsamdar og fengnar að láni voru þær í bland en áttu það allar sameiginlegt að vera drifnar áfram af Alexöndru Kjeld sem lætur sig ekki muna um syngja lögin yfir ómótstæðilegan montuno bassaganginn sem pumpar blóðinu á offbítinu innan um tifið í tres gítarnum og magnaðri slagverkssveit. Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir  heldur svo í þræði Bombastico stórsveitarinnar sem tengir stoð- tauga- og æðakerfi algleymis í músík og dansi. 

Upplýsingar um tónlstarfólk einstakra viðburða er að finna á reykjavikjazz.is

Categories
Uncategorized

Hátíð í hólfum

Líkast til hafa fæstir átt von á því að Jazzhátíð Reykjavíkur yrði haldin í ár, jafnvel þó gárungarnir hafi grínað með að samkomutakmarkanir hefðu lítil áhrif á tónlist sem í meginstraumi tegundanna þykir fráhrindandi frekar en hitt. En Jón Ómar Árnason stjórnandi hátíðarinnar hjó á hnútinn og fann leið með tónleikastöðum til að skipuleggja viðburðina þannig að áheyrendur þurfa ekki að vera í neinu verulegu návígi hver við annan. Opnunardagurinn fór fram í Hörpu og þó ég hafi ekki verið viðstaddur fyrsta viðburðinn og setningu hátíðarinnar í Flóanum í Hörpu, hef ég eftir áreiðanlegum heimildum að þar hafi bæði ræðu- og listafólk skilað sínu með mikilli prýði.

Fyrstu kvöldtónleikar Jazzhátíðar 2020 fóru fram í Norðurljósum sem skipt var niður í tvö svæði í sal auk svalanna. Fjórða sóttvarnarsvæðið var svo sviðið sjálft þar sem enginn mátti vera nema skemmtikraftarnir. Og þeir voru bráðsmitandi þetta kvöld ef svo má að orði komast.

Það kom skemmtilega á óvart hversu mikil og góð stemmning var í salnum þar sem sætum hafði verið dreift sakmvæmt reglum um snertilausa tónleikaupplifun. Sigurður Flosason byrjaði með dagskrá tónlistar sem boppari allra tíma Charlie Parker spilaði á sinni tíð við kliðmjúkar útsetningar fyrir hörpu, óbó og strengi auk píanótríós. Og það er skemmst frá því að segja að þetta var bæði hátíðlegt og skemmtilegt. Sigurður kann best allra sögu og tónlist Charlie Parker og komst að venju ákaflega vel frá þessu öllu saman þrátt fyrir að nefna það að sum þessara laga hefði hann nálgast með hálfum hug enda Bird múrinn þverhníptur. En þetta blandaðist vel í salnum og kynningarnar voru fróðlegar. Auknir myndbirtingum á skjá voru þessir tónleikar gríðarlega sterkir og hátíðlegir.

Tómas R Einarsson var næstur á svið jazzhátíðar ársins og mætti með fjölskipaða latin sveit sína sem hefur slípað sinn performans í tvo áratugi. Latínböllin sem Tómas hefur stjórnað á jazzhátíðum undanfarna áratugi eru ávallt vel sótt og aftur varð stemmningin ótrúlega fjörug þó að gestir dönsuðu eingöngu með sjálfum sér og létu nægja að hreyfa sínar mambó tær inn’í skónum. Bógómíl Font og Sigríður Thorlacius hafa líka bætt þessa hljómsveit skemmtanagildi með sínu framlagi. Ég hef þó ákveðnar efasemdir um að textinn við Títómas bæti miklu við það lag. Það er valinn maður í hverju rúmi sveitarinnar en sérlega skemmtilegt var að heyra í Davíð Þór Jónssyni píanóleikara sem jafnan bætir ólýsanlegum galdri við það sem hann tekur þátt í. Það er alltaf pláss fyrir hvatvísar Stravinsky raddsetningar í góðu mambói.

Lokaatriði fyrsta kvöldsins var hljómsveitin Annes. Þar fara nú raunverulegir annesjamenn íslenskrar tónlistar sem eru öllu vanir hvort sem er í meginstraumi hennar eða úti á ystu nöf. Margverðlaunaðir listamenn allir, og vel til fundið að fá hin óræðu form frá Annes til að dreifa huganum eftir strengjaboppið og latínballið. Það kvarnaðist aðeins úr hópi áheyrenda eins og vera ber, enda dagskráin þegar orðin umtalsverð. Og það er nú einu sinni þannig að jazzmúsíkin er ekki öll allra. Það mætti segja um tónlist Annes að hún leiti innávið. Það er samleikur hljómsveitarinnar sem er léreftið á meðan lögin eru litirnir í höndum hljóðfærapenslanna. Og myndasafnið þetta kvöld var áhugavert eins og jafnan þegar þessi hópur kemur saman. Það er yfir þessu einher spennandi eftirvænting sem smitast meðal áheyrenda. Kraumandi undiralda á spegilsléttum fleti.

Hún fór vel af stað Jazzhátíð Reykjavíkur þetta árið og það er heill hellingur eftir af þrítugsafmæli hennar. Kannski á eftir að reynast gæfuspor að á þessum tímamótum sé sviðsljósinu beint að innlendu listafólki, ekki síst ef jazzmúsíkin er sú eina sem getur viðrað sig í ástandi sem er við það að ganga af tónlistinni í landinu dauðri.

Categories
Uncategorized

Brúarsmiður kynslóðanna

Ætli nokkur tónlistarmaður hafi snert líf eins margra Íslendinga og Ragnar Bjarnason?

Það virðist svo stutt síðan að þau hjónin urðu á vegi mínum í hverfisbúðinni. Helle alltaf jafn glæsileg og Raggi…ja hann var bara Raggi. Hlýjan sem einkenndi hann alltaf er líkast til ástæða þess hversu margir minnast nú sinna persónulegu kynna af ástsælasta söngvara og skemmtikrafti sem við höfum átt. Kjarni væntumþykjunnar er nefnilega hvernig honum tókst að gera hver kynni ógleymanleg. Það er galdur sem einungis sannar stjörnur búa yfir.

Þrautseigja hefur einkennt feril Ragnars, sem þurfti að horfast í augu við tískustrauma eins og allir sem stunda listina í meginstraumnum. Lítillæti er annað einkenni allra skemmtilegu bransasagnanna sem hann var óþreytandi að deila með okkur sem nutum þess að spila með honum. Það var ævinlega einhver annar sem var í aðalhlutverki og Raggi virtist enn vera dáleiddur af því hvað Svavar Gests var mikil stjarna á sinni tíð, hversu ótrúlega fyndinn Bessi var í Sumargleðinni, eða hvernig honum sjálfum brá þegar heimsfrægur bassaleikari var allt í einu kominn á svið með honum á þorrablóti í útlöndum. Þrautseigjan birtist líka í því að bregða sér til hliðar á sviðinu og leigja út bíl í miðju gítarsólói.

Hreint ótrúlegur ferill er á enda. Það eru komin þrjátíu ár síðan sett var á svið í Súlnasalnum góða upprifjunarsýning með Ragnari, Ellý og Þuríði. Þá var verið að minnast þess að aldarfjórðungur var liðinn frá því að þau skemmtu fólki við miklar vinsældir á þeim annálaða skemmtistað. Okkur sem tókum þátt í því fannst við heppnir að fá tækifæri til að upplifa stemmninguna með þessum mikilvægu fyrirmyndum. Við héldum líkast til að Raggi væri að setja punktinn við sinn feril. Annað kom á daginn og nú hafa fleiri kynslóðir tónlistarfólks fengið að njóta ómetanlegrar samveru við þennan merkismann. Það er fallegt að sjá hvernig upplifun allra virðist vera á einn veg.

Hér sit ég og rifja upp kynnin af Ragnari Bjarnasyni og hlusta á meðan á hina hliðina, krúnerinn með sitt djúpa víbrató takast á við standardana sem voru svo stór hluti af listfengi hans.

Enginn var þó betur meðvitaður um að vinsæl lög lúta fleiri lögmálum en vel gerðri laglínu. Þar spilar inn í tilfinning fyrir áheyrendum og enginn var í betri tengslum við áheyrendur sína en Raggi sem gerði jú óformlegar markaðsrannsóknir úr bílstjórasæti leigubílsins um langt skeið.

Einhvern veginn virðst það sérkennilegt að tala um dægurtónlist og Ragnar Bjarnason í sömu andrá. Sjötíu ár á sviðinu eru tæpast neitt dægurflug og auðvitað tímalaus snilld að hálfníræður listamaður flytji “You make me feel so young” þannig að maður trúi því.

Af plötunni “Hin hliðin” Ragnar Bjarnason og hljómsveit Ástvaldar Traustasonar 1999.

Categories
Uncategorized

Meistarinn og Magga Stína

Ég fór á tónleika, sem er ekki í frásögur færandi frekar en að söngkona þeirra tónleika hitti konu í gufubaði á dögunum. Í gufusoðnu spjalli þeirra kom fram að konan hafði ekki átt Megasarlausan dag síðan 1976 og hún hlakkaði því mikið til þessara tónleika. Sjálfur hef ég átt Megasarlausa daga. Marga raunar, því hann fór bæði fyrir ofan garð og neðan hjá mér um sama leyti og konan í gufubaðinu gekkst honum á hönd.

Á þeim tíma sem göldróttur hljóðfæraleikur átti hug minn allan ruku þessir endalausu illskiljanlegu ljóðabálkar út í veður og vind – fyrir ofan garð semsagt, og hljóðfæraleikurinn sem fylgdi þótti mér oftast hálfkaraður – fyrir neðan garð semsagt. En það var þá og er kannski einmitt dæmi um hin nagandi óþægindi sem markverð list hvers samtíma hefur í för með sér.

Ekki man ég hvenær ég heyrði Möggu Stínu fyrst syngja tónlist Megasar, en engan hef ég heyrt fyrr eða síðar koma út úr þeim frumskógi með eins falleg blóm. Það var því sérlega viðeigandi blómaskrúðið á Eldborgarsviðinu á laugardaginn, enda var hnýttur þar hver úrvalskransinn á fætur öðrum.

Frá hljóðprufu. Allir í æfingafötum.

Söngkonan fór fyrir hreint frábærri hljómsveit. Tómas Jónsson, Daníel Friðrik Böðvarsson, Jakob Smári Magnússon og Matthías Hemstock sáu til þess að Magga Stína gat kjarnað sig áhyggjulaust og sent okkur í salnum bæði umhugsunarefnin í ljóðunum en ekki síður fjölbreyttar laglínurnar sem eru nú ekki allar einfaldar.

Það hvarflaði að mér að einmitt svona hlýtur Megas að heyra þetta fyrir sér, jafnvel þegar hann syngur sjálfur.

Það ætti ekki að þurfa að tala um útgeislun. Brúnamánarnir bláu virtust ná sambandi við hvern og einn einasta áheyranda, og þegar sungið var um fölbleika náttkjóla minnti rauðbleiki sviðskjóllinn á að hitinn kemur að innan og fölvi er ekki til í litasafni söngkonunnar.

Gestagangur var nokkur á þessum tónleikum og ekki skemmdi það fyrir. Didda skáldkona fór á kostum og sérlega eftirminnilegur var þríleikur þeirra Sigrúnar Eðvaldsdóttur með Möggu Stínu. Og brasssveitin Látun kom líka við sögu og spann skemmtilega úthverfasveiflu auk þess að lána saxófónleikara sína í hluta dagskrár. Útgeislun getur líka verið hættuleg geislun og það var eins og þær áttuðu sig vel á því Magga Stína og Halldóra Geirharðsdóttir, sem gættu þess að nálgast ekki um of á sviðinu. Þar hefði getað orðið kjarnasamruni sem hefði kannski riðið okkur öllum að fullu. Ekki má heldur gleyma innkomu Björgvins Gíslasonar með sítarinn, sem sat í stóískri ró þangað til Fílahirðirinn skipti um gír og kallaði eftir fleiri simpatískum strengjum. Þá er ótalið framlag kóranna sem stækkuðu þennan gjörning svo um munaði undir dyggri handleiðslu Hilmar Arnar Agnarssonar.

Okkur sem vorum sein til að “fatta” Megas er nokkur vorkunn. Líklega voru mistök okkar fólgin í því að reyna að “skilj’ann”. Algeng mistök sem hægt er að læra af. Söngvarnir eru óafmáanlegur hluti íslenskrar þjóðarsálar. Maður finnur hversu kunnuglegir þeir eru þó maður muni ekki hvað þeir heita. Blanda af Agli Skallagrímssyni og Sigvalda Kaldalóns, eða Schubert og Sigurði Fáfnisbana.

Ætli við séum að missa af boskap einhvers arftaka Megasar í samtímanum? Er hættan meiri, á tímum offramboðs rétthugsunar og falsfrétta, að við leiðum hjá okkur mikilvægar ónotatilfinningar? Kannski vegna þess að þær eru ekki í umbúðum sem passa okkur? Ég ætla að velta þessu fyrir mér strax og kannski vekja máls á því við sessunaut minn næst þegar ég fer í gufubað.