Category: Uncategorized
Andartak frá Amsterdam
Hátalarahugleiðing
Sergei Rachmaninov var víst 18 ára þegar hann samdi sitt tregafulla tríó, ennþá nemandi í konservatoríinu í Moskvu. Á föstudagstónleikum Sinfóníunnar var ýtt úr vör skemmtilegri tónleikasyrpu sem byggir á tónlist Rachmaninovs og löndu hans Sofiu Gubaidulinu.
Tónleikarnir hófust á myndbandi þar sem Árni H Ingólfsson sagði frá tónskáldunum og verkum þeirra, átökum við yfirvöld og baráttunni við halda sínu listræna frelsi, prýðilegur inngangur – sérstaklega þar sem tónleikarnir voru í styttra lagi.
Nicola Lolli, Sigurgeir Agnarson og Anna G Guðmundsdóttir spiluðu tríó Rachmaninovs af mikilli list og óx ásmeginn eftir því sem á leið.
Það er reyndar áhugavert hvernig maður upplifir svona ferðalag sem hlustandi. Rétt eins og flytjendurnir þurfa að komast yfir kvíðann yfir því að samleikurinn verði annað en fullkominn og hver tónn hreinn og skýr – þá er áheyrandinn stressaður yfir því hvort tónlistin og/eða flutningurinn höfði til hans eða ekki. Og þá er það framvindan sem sker úr, þessi andartök sem það tekur hustandann að setja sig inn í hvernig er verið að spila og hvernig salurinn hljómar. Við ákveðum hvert fyrir sig hvort þetta sé ferðalag sem vert er að fara í með listafólkinu á sviðinu.
Það er skemmst frá því að segja að það var sannarlega betur af stað farið en heima setið – og á það við um bæði verkin. Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari stóð vaktina í þeim báðum en skipt var út strengjum. Sigrún Eðvaldsdóttir fór fyrir strengjum í kvintetti Gubaidulinu.
Kannski er það einmitt eins og í handboltanum að það er líflegra þegar spilað er á breiddinni. Öll spila þau mikið með sínu félagsliði – Sinfóníuhljómsveit Íslands – og eru því í góðu formi, en það er lykilatriði þegar kemur að velheppnuðum tónlistarflutningi að tefla fram sjálfstrausti og sannfæringu, sem verður einmitt til þegar aðstæður atvinnumennskunnar eru tryggðar.
Tónlist, eins og svo margt annað nær mestum hæðum þegar hún fær frið í hversdagsleikanum.
Árni Heimir Ingólfsson vísaði í kynningarmyndbandi tónleikanna í bréf sem hljómsveitinni hefur borist frá Sofiu Gubaidulinu, sem er um nírætt og hefur því að mestu tekið fyrir ferðalög, en fylgist vel með afdrifum verka sinna og kann að meta þegar búin er til röð tónleika eins og sú sem hófst á föstudaginn síðasta.
Í þessu bréfi kemur hún tam inná að öll tónlist beri með sér andlegt inntak, hvort sem fólk er trúað eða ekki – og nefnir að í tónlist takist óendanleikinn á við endanleikann. Dæmi um það er hvernig hún sjálf upplifði þörf sína fyrir frjálsan spuna í sérkennilegu sambandi við þörfina á að lenda þeim spuna einhversstaðar – á grunntóni. Margt fleira áhugavert er komið inná í þessu bréfi sem hægt er að lesa á heimasíðu sinfóníunnar.
Píanókvintett Gubaidulinu er elsta verk hennar sem hún leyfir að sé spilað opinberlega. Þar frá 1957 og hún var þá 26 ára gömul og ennþá nemandi í konservatoríinu í Moskvu þar sem hún lenti upp á kant við prófessorana sína sem töldu hana vera að sveigja um of frá flokkslínu sovétsins í tónlistarsköpun. Einn af kennurunum við skólann – Dmitri Shostakovitch á að hafa laumað að henni á göngunum að hún skyldi endilega halda áfram að búa til þessa óæskilegu tónlist.
En á mælikvarða dagsins í dag er ekkert óæskilegt við píanókvintettinn góða frá 1957, sem er augljóslega undir áhrifum af verki sem hin unga tónskáldkona hafði ugglaust heyrt sem barn,en eins og sessunautur minn sagði eftir píanókvintett Gubaidulinu sl föstudag – “það var nú gaman að heyra Pétur og úflinn”. Og það er nú svo oft mergurinn málsins að hlustendur eru þakklátir fyrir kennileyti í tónlist. Hún verður aðgengilegri fyrir vikið, ekki síst í köflum eins og þeim sem Gubaidulina virðist alveg gleyma sér í Prokofiev.
En þetta er nú einu sinni æskuverk og þau hafa vissulega tekið miklum stakkaskiptum verkin hennar í gegnum áratugina. Orðin umtalsvert ágengari, en búa yfir einhverjum kjarna sem virðist rata til hlustenda, jafnvel þó hann sé dulbúnari nú en þá. Það verður vissulega spennandi að heyra hin stefnumótin tvö sem sinfónían hefur skipulagt með tónlist Gubaidulinu og Rachmaninovs.
Ískaldur raunveruleiki

… á nýju ári. Að taka snúning.
Að hugsa sér
Að hugsa sér. Depurð áramótanna og afkomukvíði gamalmennisins kristallast í því að læsa sig fastan í félagslegum gapastokki nýaldar – heimasíðunni. Ég er barasta dáldið forvitinn um hvort hún verður til gagns, svo ekki sé talað um gaman. Myndirnar og hljóðin minna á að liðið ár var viðburðaríkt. Þau eru það nú flest, árin- þó skammtímaminnið sé stundum eins og hjá japönskum stærðfræðiprófessor, sem getur ekki munað neitt síðan á áttunda áratugnum. En til hvers svo sem að muna? Er ekki ítrekunarblæti fjölmiðlanna komið í staðinn?