Leikhús/Theatre

Ég kynntist leikhúsvinnu tónlistarmannsins snemma, en hafði þó aldrei íhugað þá hlið á starfinu fyrr en Reynir Sigurðsson (minn góði kennari úr Tónlistarskólanum í Reykjavík) bauð mér að leysa sig af í söngleik í Þjóðleikhúsinu. Árið var 1985 og það var sýnt á þriðjudögum og miðvikudögum jafnt og um helgar. Gæjar og píur, með Bessa Bjarnasyni og Diddu Þorvalds í aðalhlutverkum.

Ég man að mér þótti nú frekar skemmtilegur vinnustaður þar sem maður lenti á milli Mikka refs og Lilla klifurmúsar æsku sinnar í röðinni við staffakássupotta Leikhúskjallarans. Ég var að spila í öðrum söngleik, Chicago í gryfju Þjóðleikhússins þegar Jóhann G Jóhannsson beygði sig niður í holuna og bauð mér að spila með í nýjum íslenskum söngleik í Iðnó. Land míns föður eftir Kjartan Ragnarsson og Atla Heimi Sveinsson var sýnt 219 sinnum ef ég man rétt og við Jóhann sátum einir hljómsveitarmeðlima allar sýningar og úr varð vinátta sem er mér ómetanleg. Ég tel mig mjög heppinn að hafa tekið þátt í þessu með Jóhanni, Atla Heimi og Kjartani, allir gríðarlegir hæfileikamenn og skemmtilegir í návígi, enda finnst varla skemmtilegra fólk en það sem býr yfir mikilli sköpunargleði og hefur að auki ríkan húmor fyrir sjálfu sér og umhverfi sínu.

Þarna varð ég líka fyrir Shakespeare þegar við Jóhann músíseruðum innan í kastalaveggjunum sem Gretar Reynisson hannaði fyrir Hamlet og hans kærleiksríku fjölskyldu. Þröstur Leó lék prinsinn og Sigrún Edda var ógleymanleg Ófelía. Það var líka leikið í skemmunni á Bráðræðisholtinu, Síldin kemur og síldin fer, þar sem Valgeir Guðjónsson bjó til músíkina sem við spiluðum með Árna Scheving, Bjögga Gísla og Birgi Bragasyni.

Og síðan lá leiðin í Borgarleikhúsið nýja, þar sem við Jóhann tókum þátt í opnunarsýningunum – hann á stóra sviðinu en ég á litla. Ljós heimsins, aftur með Kjartani Ragnarssyni og frábærum leikhópi. Helgi Björns lék aumingjann og Ólafía Hrönn var frábær Magnea í einu af sínum fyrstu hlutverkum held ég.

Síðar komu sýningar eins og Eva Luna með tónlist Egils Ólafssonar í hljómsveit undir stjórn Árna Scheving. Kabarett í leikstjórn Guðjóns Petersen með Eddu Heiðrúnu og Ingvari Sigurðssyni í aðalhlutverkum. Þá var ég hljómsveitarstjóri, sem var nú dáldið bjartsýniskast, en hljómsveitin var frábær. Mávahlátur í leikstjórn Þórhildar Þorleifsdóttur leiddi svo til frekara samstarfs okkar í Híbýlum vindanna og Lífsins tré, vesturfarasögum Böðvars Guðmundssonar. Þórhildur var líka leikstjóri í eftirminnilegum sýningum með fínni músík Hjálmars H Ragnarssonar í Þjóðleikhúsinu- Yerma og Pétur Gautur.

Það var nefnilega einnig mikið spilað og leikið í Þjóðleikhúsinu. Rómeó og Júlía með Guðjóni Petersen. Hljómsveit á færanlegum palli og Edda Heiðrún Backman söng með af alkunnri snilld. Eigin tónlist í bland við tökulög héðan og þaðan. Meðal annars eftir Paolo Conte, sem Gíó og Gretar Reynisson dáðust mjög að. Þar vann ég líka með Kjartani Ragnarssyni Grandavegi 7, eftir sögu Vigdísar Grímsdóttur. Axel Hallkell gerði ógleymanlega leikmynd og leikhópurinn lagði til hljóðin sem urðu að músíkinni sem kom út á plötu 1997. Þessi sýning er líklega sú eftirminnilegasta sem ég hef starfað að. Það er erfitt að útskýra hvers vegna, en það verður stundum til einhver kraftur í vinnunni sem hjálpar manni að finna rétta hljóminn og áframhaldið. Þröstur Leó gekk þarna í sjóinn undir dramatískum músíkbálki (sem fraus svo eftirminnilega í nýju tölvukerfi á generalprufu), Bergur Þór Ingólfsson og Margrét Vilhjálmsdóttir áttu stórleik að vanda en þau voru líka með í öðru eftirminnilegu verki sem ég tók þátt í þegar Krítarhringurinn í Kákasus var sýndur í leikstjórn Stefans Metz.

Og innan um og saman við þetta voru svo verkefni fyrir ásláttarmanninn, þar á meðal Gleðispilið þar sem við Guðni Franzson og Martial Nardeu spiluðum allskonar músík í allskonar búningum. Með fullri reisn var söngleikur sem stóð undir nafni. Einnig eru eftirminnilegar óteljandi sýningar barnaleikrita; Kardemommubærinn, Dýrin í Hálsaskógi, Skilaboðaskjóðan, Fríða og Dýrið og Emil í Kattholti eru þar á meðal. Allt undir öruggri hljómsveitarstjórn Jóhanns G Jóhannssonar, sem gegndi stöðu tónlistarstjóra Þjóðleikhússins um árabil af sinni annáluðu fagmennsku.

Utan stóru leikhúsanna hefur eitt og annað skotið upp kollinum. Það var áhugavert að búa til músík fyrir Viðtalið -döff sýningu í Hafnarfjarðarleikhúsinu undir stjórn Margrétar Pétursdóttur. Brák með Brynhildi Guðjónsdóttur í Landnámssetrinu í Borgarnesi og svo nokkur verkefni fyrir Útvarpsleikhúsið, Jóhanna í Sláturhúsinu, Út í garð með íkornann, Litla tré og nú síðast Völuspá, sem tengja skemmtilega saman ólíkar aðferðir lifandi leikhústónlistar og fullunnins efnis fyrir ljósvakamiðla.

Sýnishorn af tónlistinni í Grandavegi 7:

Sýnishorn af tónlistinni í Krítarhringnum…

Sýnishorn af tónlistinni úr Mávahlátri: