Categories
Uncategorized

Apríldjassinn

English

Alþjóðlegi djassdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Reykjavík allar götur síðan Unesco setti hann inn á almanakið árið 2011. Í þetta sinn var boðið upp á fjölbreytta dagskrá víðsvegar um borgina.

Mín leið lá í Hannesarholt þar sem Óskar Guðjónsson blés eigin tónlist á saxófóna sína með Move kvartettinum. Eyþór Gunnarsson á píanó, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á bassa og Matthías Hemstock á trommur.

Þeir spiluðu sig vel inn í þennan fallega sal sem er nú reyndar full lítill fyrir hljómsveit sem býr yfir þeirri margslungnu túlkun sem þarna er á ferðinni. Lögin hans Óskars hafa verið eimuð í þessum félagsskap í sjö ár svo að það kemur ekki á óvart að allt sé á dýptina.

Við sem hlustum upplifum þetta eins og enn eitt metið í samspili og nærfærni á meðan Michelin kokkarnir á sviðinu eru enn að leita að þessu auka míkrógrammi í aðra hvora áttina. Vonandi kemur fljótlega plata sem markar upphafið að næstu sjö ára blöndu.

Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef ekki fyrr mætt á djammsessjón á Le Kock við Tryggvagötuna. Þar var húsbandið að störfum. Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Maggi Tryggva á trommur og Daníel Friðrik á gítar. Sigmar Þór mannaði sinn örvhenta kontrabassa sem latti viðstadda bassaleikara frekar til stuðsins, þó Birgir Steinn Theodórsson hafi ekki látið það hafa áhrif á sinn rétthenta stíl, enda vissu sumir meðspilarar hans ekki hvoru megin línan lá.

Skemmtilegur staður fyrir svona uppákomu og ástæða til að hvetja fólk til að sækja mánudjassinn á Le Kock.

Apríl í Bremen – Jazzahead

Það er gaman að sjá hvernig Jazzahead hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg á þeim átján árum sem hún hefur farið fram.

Bremen í Þýskalandi er vettvangur þessarar stærstu kaupstefnu djasstónlistarinnar í heiminum.

Þó að ágóðavon starfseminnar sem þarna er kynnt sé ekki í hæstu hæðum þá er þarna að finna ákveðna loftvog þess sem á sér stað á Evrópusviði spunalistarinnar. Útflutningsstofur hvaðanæva að úr heiminum koma sér þarna fyrir til að kynna listafólk sitt.

Hvert ár er valin gestaþjóð sem teflir fram áhugaverðasta listafólki sínu í tónleikaröðum hátíðarinnar. Í ár var það Holland, sem hefur undanfarna áratugi haslað sér völl sem helsti áfangastaður þeirra sem leggja stund á djassfræðin í tónlistarskólum.

Einnig var lögð áhersla á nýja djasstónlist frá Afríku á þessari hátíð.

Frábær hugmynd að bjóða uppá tónleikana á risaskjá á útisvæði líka

Íslenskur bás hefur verið á Jazzahead í 12 ár á vegum Tónlistarmiðstövar. Hér er linkur á útvarpsþátt með viðtölum við íslenska þátttakendur ársins og Sigtrygg Baldursson frá Tónlistarmiðstöð.

EBU og allur sá djass

Ég sótti fund útvarsfólks djasstónlistarinnar á Jazzahead þetta árið. EBU heldur úti áhugaverðu samstarfi í djasstónlist sem verður gaman að taka þátt í fyrir hönd Rásar 1 Ríkisútvarpsins.

Þessi félagsskapur er ábyrgur fyrir að bjóða til evrópusamstarfsins hljóðritanir með listafólki frá sínum svæðum. Við höfum tam í gegnum tíðina boðið valdar hljóðritanir frá Djasshátíð Reykjavíkur og vonandi verður hægt að taka upp þennan þráð þegar búið verður að skrifa undir nýja samninga Rúv og hljómlistarfólks.

Öll eigum við sameiginlegt í þessum EBU félagsskap að brenna fyrir að deila spennandi tónlist með útvarpshlustendum heima og heiman. Flest vinnum við jöfnum höndum með sígilda tónlist og djass og svo eru auðvitað mjög mismunandi vandamál sem blasa við í hverju landi, hvort sem er í fjármögnun eða afstöðu ráðamanna til ríkisrekinna fjölmiðla.

Saman stöndum við að Euroradio Jazz Competition, sem er keppni ungs listafólks (undir þrítugu). Hvert land tilnefnir einn listamann eða hljómsveit sem dómnefnd úr okkar röðum velur úr fjögur atriði til að keppa til úrslita á Marcic djasshátíðinni í suður Frakklandi.

Fulltrúi Íslands í ár er gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson.

Einnig stendur djassdeild EBU fyrir alþjóðlegri stórsveit hvert ár. Þá tilnefnir hvert land einn hljóðfæraleikara til þátttöku og valið er síðan í höndum þess sem leiðir hljómsveitina í hvert sinn. Ákvörðun liggur ekki fyrir hvar þetta fer fram á ár en Slóvakía er líkleg.