Categories
Uncategorized

Maí og júní

Velkomin til Þýskalands í gegnum Feneyjar

Vorið var ekki uppá marga fiska á landinu bláa. Skottúr til Feneyja reyndist prýðis uppbrot í hversdagslífið. Ég fór þangað með konu minni, dóttur og dóttursyni.

Fyrir heimsóknina á tíeyringinn í Feneyjum var úr ýmsu að moða í tónlistarlífinu. Tumi Árnason fór með gesti sína í stórskemmtilegt ferðalag í Sólverki sínu (útskriftarverki hans frá Listháskólanum). Fjölskipuð sveit býður upp á alveg sérstakt andrúmsloft í svona miklum spuna. Það verður gaman að heyra þetta aftur á Djasshátíð Reykjavíkur í ágústlok.

Ensemble Adapter heldur áfram að gera góða hluti. Í þetta sinn endurskópu þau verk frá níunda áratugnum þar sem tónlist John Cage og Toru Takemitsu var sett í sérkennilegt hljóðrænt og sjónrænt samhengi. Gríðarlega vel gert hjá Gunnhildi Einarsdóttur og Matthíasi Engler. Performansinn í Norðurljósum var á mörkum heimildarþáttar og tónleika.

Stórsveit Reykjavíkur hélt sína árlegu tónleika með nýsmíðaðri stórsveitartónlist. Samúel Jón Samúelsson stjórnaði af röggsemi mjög ólíkri tónlist. Það er merki um aukinn styrk hljómsveitarinnar hvernig hún skilar ólíkum verkefnum í dagskrá sinni á sífellt hærra plani.

Þorleifur Gaukur Davíðsson sýndi okkur myndina með fínu músíkinni sem hann tileinkar föður sínum – áður en þeir Skúli Sverrisson og Davíð Þór Jónsson spiluðu fyrir gesti í Salnum. Munnharpa eða gítarar úr timbri jafnt og stáli. Allt leikur í höndum Gauks og samspil þeirra þriggja óaðfinnanlegt.

Listahátíð í Reykjavík var með hefðbundnu sniði. Eitthvað fyrir alla. Yfirleitt finn ég eitthvað áhugavert í dagskrá hátíðarinnar, sem dugar svo sem alveg. Hún er ekki fyrir mig einan. En mér finnst hún mætti vera listrænt ágengari, sérstaklega á tónlistarsviðinu.

Ég sá Jacob Collier, sem ég hef fylgst með síðan ég sá hann á tónleikum í Þýskalandi fyrir átta árum. Þá var hann rétt rúmlega tvítugur og að byrja að koma fram með sína ótrúlegu tækni og hæfileika. Ekki hefur tæknin minnkað eða hæfileikarnir. Ég hefði glaður borgað fullt verð bara fyrir túlkun hans á Bridge over troubled water. Það er líka einhver hreinleiki í hvernig hann virkjar salinn í söng. Hins vegar er sérkennilegt hversu mikil skinka hann er inn á milli og hversu mikinn kraft hann setur í að gleðja alla, þegar hann hlýtur að vita að það er ekki hægt.

Það var tónlistarhópurinn Skerpla sem kom mér skemmtilega á óvart með endurgerð á verki eftir John Cage. Alltaf skal sá magnaði höfundur/hugsuður vera í hringiðu óræðninnar. Fjölskipaður Skerplu hópurinn vann verkið – Niður, íslenskur sirkus um Ljósagang – eftir forskrift Cage upp úr Ljósagangi Dags Hjartarsonar. Úr varð sérkennilegt og fjölbreytt ferðalag í óminum af nið aldanna og spurningunni um hvaða tónlist skiptir máli. Hér er linkur á útvarpsþátt sem ég gerði um þetta.

Annar viðburður sem mér finnst eftirminnilegur er Raddir úr blámanum. Þar söng Benedikt Kristjánsson með Ensemble Adapter tónlisti eftir Þuríði Jónsdóttur. Mjög falleg blanda af nýju og gömlu sem hljómaði í Breiðholtskirkju.

Davíð Þór Jónsson hélt áfram með að spinna í Salnum í Kópavogi og Eyþór Gunnarsson tók slaginn með honum á sumarsólstöðutónleikum. Það hefur verið gríðarlega gaman að fylgjast með dúettum þeirra alveg frá því að þeir spiluðu fyrsta dúettinn á Djasshátíð Reykjavíkur 2008. Maður veit aldrei hvert þeir fara eða á hvaða snúningi maskínan verður. Hér er linkur útvarpsþætti sem urðu til þegar þeir komu í heimsókn í útvarpið í fyrra.

Og útvarpið verður að horfast í augu við að utan þess er líka líf. Jónatan Garðarsson, minn góði samstarfsmaður til margra ára kvaddi Rás eitt á dögunum eftir farsælan feril og ótrúlega framleiðni.