Categories
Uncategorized

Maí og júní

Velkomin til Þýskalands í gegnum Feneyjar

Vorið var ekki uppá marga fiska á landinu bláa. Skottúr til Feneyja reyndist prýðis uppbrot í hversdagslífið. Ég fór þangað með konu minni, dóttur og dóttursyni.

Fyrir heimsóknina á tíeyringinn í Feneyjum var úr ýmsu að moða í tónlistarlífinu. Tumi Árnason fór með gesti sína í stórskemmtilegt ferðalag í Sólverki sínu (útskriftarverki hans frá Listháskólanum). Fjölskipuð sveit býður upp á alveg sérstakt andrúmsloft í svona miklum spuna. Það verður gaman að heyra þetta aftur á Djasshátíð Reykjavíkur í ágústlok.

Ensemble Adapter heldur áfram að gera góða hluti. Í þetta sinn endurskópu þau verk frá níunda áratugnum þar sem tónlist John Cage og Toru Takemitsu var sett í sérkennilegt hljóðrænt og sjónrænt samhengi. Gríðarlega vel gert hjá Gunnhildi Einarsdóttur og Matthíasi Engler. Performansinn í Norðurljósum var á mörkum heimildarþáttar og tónleika.

Stórsveit Reykjavíkur hélt sína árlegu tónleika með nýsmíðaðri stórsveitartónlist. Samúel Jón Samúelsson stjórnaði af röggsemi mjög ólíkri tónlist. Það er merki um aukinn styrk hljómsveitarinnar hvernig hún skilar ólíkum verkefnum í dagskrá sinni á sífellt hærra plani.

Þorleifur Gaukur Davíðsson sýndi okkur myndina með fínu músíkinni sem hann tileinkar föður sínum – áður en þeir Skúli Sverrisson og Davíð Þór Jónsson spiluðu fyrir gesti í Salnum. Munnharpa eða gítarar úr timbri jafnt og stáli. Allt leikur í höndum Gauks og samspil þeirra þriggja óaðfinnanlegt.

Listahátíð í Reykjavík var með hefðbundnu sniði. Eitthvað fyrir alla. Yfirleitt finn ég eitthvað áhugavert í dagskrá hátíðarinnar, sem dugar svo sem alveg. Hún er ekki fyrir mig einan. En mér finnst hún mætti vera listrænt ágengari, sérstaklega á tónlistarsviðinu.

Ég sá Jacob Collier, sem ég hef fylgst með síðan ég sá hann á tónleikum í Þýskalandi fyrir átta árum. Þá var hann rétt rúmlega tvítugur og að byrja að koma fram með sína ótrúlegu tækni og hæfileika. Ekki hefur tæknin minnkað eða hæfileikarnir. Ég hefði glaður borgað fullt verð bara fyrir túlkun hans á Bridge over troubled water. Það er líka einhver hreinleiki í hvernig hann virkjar salinn í söng. Hins vegar er sérkennilegt hversu mikil skinka hann er inn á milli og hversu mikinn kraft hann setur í að gleðja alla, þegar hann hlýtur að vita að það er ekki hægt.

Það var tónlistarhópurinn Skerpla sem kom mér skemmtilega á óvart með endurgerð á verki eftir John Cage. Alltaf skal sá magnaði höfundur/hugsuður vera í hringiðu óræðninnar. Fjölskipaður Skerplu hópurinn vann verkið – Niður, íslenskur sirkus um Ljósagang – eftir forskrift Cage upp úr Ljósagangi Dags Hjartarsonar. Úr varð sérkennilegt og fjölbreytt ferðalag í óminum af nið aldanna og spurningunni um hvaða tónlist skiptir máli. Hér er linkur á útvarpsþátt sem ég gerði um þetta.

Annar viðburður sem mér finnst eftirminnilegur er Raddir úr blámanum. Þar söng Benedikt Kristjánsson með Ensemble Adapter tónlisti eftir Þuríði Jónsdóttur. Mjög falleg blanda af nýju og gömlu sem hljómaði í Breiðholtskirkju.

Davíð Þór Jónsson hélt áfram með að spinna í Salnum í Kópavogi og Eyþór Gunnarsson tók slaginn með honum á sumarsólstöðutónleikum. Það hefur verið gríðarlega gaman að fylgjast með dúettum þeirra alveg frá því að þeir spiluðu fyrsta dúettinn á Djasshátíð Reykjavíkur 2008. Maður veit aldrei hvert þeir fara eða á hvaða snúningi maskínan verður. Hér er linkur útvarpsþætti sem urðu til þegar þeir komu í heimsókn í útvarpið í fyrra.

Og útvarpið verður að horfast í augu við að utan þess er líka líf. Jónatan Garðarsson, minn góði samstarfsmaður til margra ára kvaddi Rás eitt á dögunum eftir farsælan feril og ótrúlega framleiðni.

Categories
Uncategorized

Apríldjassinn

English

Alþjóðlegi djassdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur í Reykjavík allar götur síðan Unesco setti hann inn á almanakið árið 2011. Í þetta sinn var boðið upp á fjölbreytta dagskrá víðsvegar um borgina.

Mín leið lá í Hannesarholt þar sem Óskar Guðjónsson blés eigin tónlist á saxófóna sína með Move kvartettinum. Eyþór Gunnarsson á píanó, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson á bassa og Matthías Hemstock á trommur.

Þeir spiluðu sig vel inn í þennan fallega sal sem er nú reyndar full lítill fyrir hljómsveit sem býr yfir þeirri margslungnu túlkun sem þarna er á ferðinni. Lögin hans Óskars hafa verið eimuð í þessum félagsskap í sjö ár svo að það kemur ekki á óvart að allt sé á dýptina.

Við sem hlustum upplifum þetta eins og enn eitt metið í samspili og nærfærni á meðan Michelin kokkarnir á sviðinu eru enn að leita að þessu auka míkrógrammi í aðra hvora áttina. Vonandi kemur fljótlega plata sem markar upphafið að næstu sjö ára blöndu.

Það er eiginlega skömm frá því að segja að ég hef ekki fyrr mætt á djammsessjón á Le Kock við Tryggvagötuna. Þar var húsbandið að störfum. Sölvi Kolbeinsson á saxófón, Maggi Tryggva á trommur og Daníel Friðrik á gítar. Sigmar Þór mannaði sinn örvhenta kontrabassa sem latti viðstadda bassaleikara frekar til stuðsins, þó Birgir Steinn Theodórsson hafi ekki látið það hafa áhrif á sinn rétthenta stíl, enda vissu sumir meðspilarar hans ekki hvoru megin línan lá.

Skemmtilegur staður fyrir svona uppákomu og ástæða til að hvetja fólk til að sækja mánudjassinn á Le Kock.

Apríl í Bremen – Jazzahead

Það er gaman að sjá hvernig Jazzahead hátíðinni hefur vaxið fiskur um hrygg á þeim átján árum sem hún hefur farið fram.

Bremen í Þýskalandi er vettvangur þessarar stærstu kaupstefnu djasstónlistarinnar í heiminum.

Þó að ágóðavon starfseminnar sem þarna er kynnt sé ekki í hæstu hæðum þá er þarna að finna ákveðna loftvog þess sem á sér stað á Evrópusviði spunalistarinnar. Útflutningsstofur hvaðanæva að úr heiminum koma sér þarna fyrir til að kynna listafólk sitt.

Hvert ár er valin gestaþjóð sem teflir fram áhugaverðasta listafólki sínu í tónleikaröðum hátíðarinnar. Í ár var það Holland, sem hefur undanfarna áratugi haslað sér völl sem helsti áfangastaður þeirra sem leggja stund á djassfræðin í tónlistarskólum.

Einnig var lögð áhersla á nýja djasstónlist frá Afríku á þessari hátíð.

Frábær hugmynd að bjóða uppá tónleikana á risaskjá á útisvæði líka

Íslenskur bás hefur verið á Jazzahead í 12 ár á vegum Tónlistarmiðstövar. Hér er linkur á útvarpsþátt með viðtölum við íslenska þátttakendur ársins og Sigtrygg Baldursson frá Tónlistarmiðstöð.

EBU og allur sá djass

Ég sótti fund útvarsfólks djasstónlistarinnar á Jazzahead þetta árið. EBU heldur úti áhugaverðu samstarfi í djasstónlist sem verður gaman að taka þátt í fyrir hönd Rásar 1 Ríkisútvarpsins.

Þessi félagsskapur er ábyrgur fyrir að bjóða til evrópusamstarfsins hljóðritanir með listafólki frá sínum svæðum. Við höfum tam í gegnum tíðina boðið valdar hljóðritanir frá Djasshátíð Reykjavíkur og vonandi verður hægt að taka upp þennan þráð þegar búið verður að skrifa undir nýja samninga Rúv og hljómlistarfólks.

Öll eigum við sameiginlegt í þessum EBU félagsskap að brenna fyrir að deila spennandi tónlist með útvarpshlustendum heima og heiman. Flest vinnum við jöfnum höndum með sígilda tónlist og djass og svo eru auðvitað mjög mismunandi vandamál sem blasa við í hverju landi, hvort sem er í fjármögnun eða afstöðu ráðamanna til ríkisrekinna fjölmiðla.

Saman stöndum við að Euroradio Jazz Competition, sem er keppni ungs listafólks (undir þrítugu). Hvert land tilnefnir einn listamann eða hljómsveit sem dómnefnd úr okkar röðum velur úr fjögur atriði til að keppa til úrslita á Marcic djasshátíðinni í suður Frakklandi.

Fulltrúi Íslands í ár er gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson.

Einnig stendur djassdeild EBU fyrir alþjóðlegri stórsveit hvert ár. Þá tilnefnir hvert land einn hljóðfæraleikara til þátttöku og valið er síðan í höndum þess sem leiðir hljómsveitina í hvert sinn. Ákvörðun liggur ekki fyrir hvar þetta fer fram á ár en Slóvakía er líkleg.